UMSS - Afrekssjóður

Reglugerð  um afrekssjóð Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS)

 

Reglugerðin er svohljóðandi:

1.grein.   Sjóðurinn heitir Afrekssjóður UMSS.   Hlutverk hans er að styrkja afrekssfólk aðildarfélaga UMSS. 

2.grein.   Tilgangur sjóðsins er sá að taka þátt í kostnaði afreksfólks UMSS vegna þátttöku í æfingum og keppni á landsvísu og fyrir hönd Íslands.

3.grein.   Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur einstaklingum og einum til vara. Ársþing UMSS kýs tvo einstaklinga í stjórnina og einn til vara, sem ekki eru í aðalstjórn UMSS. Formaður UMSS er þriðji maður stjórnar og formaður sjóðstjórnar.   Stjórn sjóðsins skal skipuð til eins árs í senn.

4.grein.   Tekjur sjóðsins eru ákveðið hlutfall tekna UMSS af íslenskri Getspá, skv. Lottóreglugerð. Að auki frjáls framlög einstaklinga, stofnana, fyrirtækja  og sveitarfélaga.

5.grein.   Heimilt er að veita úr sjóðnum, á hverjum tíma, öllu því fé sem í honum er. Sjóðsstjórn ákveður styrktar upphæð hverju sinni.

6.grein.   Sjóðsstjórn skal taka mið af kostnaði einstaklingsins við ákvörðun á styrkveitingu.

7.grein.   Til að hljóta styrk, þurfa viðkomandi íþróttamenn að sækja skriflega um til framkvæmdarstjóra UMSS og jafnframt að gera grein fyrir forsendum  umsóknarinnar. Umsóknir þurfa að berast fyrir 1. desember ár hvert.

8. grein.    Formaður UMSS boðar til fundar í sjóðstjórn á tímabilinu 1.-14. desember ár hvert.  Styrkinn skal afhenda við hentugt tilefni fyrir lok almanaksársins.

9. grein. Sjóðstjórn gerir grein fyrir styrkveitingum úr sjóðnum í ársskýrslu UMSS.

10. grein. Skoðunarmenn UMSS eru jafnframt skoðunarmenn reikninga sjóðsins.

11. grein.   Breytinga á reglugerð þessari er hægt að gera á ársþingi UMSS að fengnu samþykki meirihluta atkvæða.

 

Reglur þessar verða sendar öllum aðildarfélögum og ráðum innan raða UMSS og birtar á heimasíðu UMSS.

 

Samþykkt á 102. ársþingi UMSS þann 12. mars 2022.