Lög Ungmennasambands Skagafjarðar

LÖG UNGMENNASAMBANDS SKAGAFJARÐAR

I. kafli Um Sambandið

1. grein
Sambandið heitir Ungmennasamband Skagafjarðar, skammstafað UMSS. Félagssvæði sambandsins er Skagafjarðarhérað. UMSS lýtur lögum Ungmennasambands Íslands (UMFÍ) og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ).

2. grein
Lögheimili og varnarþing UMSS er hið sama og lögheimili formanns hverju sinni.

3. grein
Markmið sambandsins er:
- Að stuðla að auknu samstarfi sambandsfélaganna um íþróttamál í samræmi við gildandi íþróttalög ÍSÍ.
- Að vinna að öðrum sameiginlegum hagsmuna- og áhugamálum félaganna og vera málsvari þeirra út á við.
- Að vinna að hverskonar menningar og framfaramálum og starfa í samræmi við stefnuskrá og lög Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).

II. kafli Um Aðildarfélög

4. grein
Rétt til aðildar að UMSS eiga þau ungmenna- og íþróttafélög sem starfa eða munu starfa á sambandssvæði UMSS, enda séu lög þeirra í samræmi við lög og stefnuskrá UMSS, UMFÍ og ÍSÍ.

Umsóknir um inngöngu í sambandið skulu berast stjórn UMSS ásamt skýrslum um stofndag og ár, lögum félagsins, félagaskrá og upplýsingum um stjórn þess. Stjórn UMSS sannreynir að starfsemi og lög viðkomandi félags samræmist að lögum og stefnum UMFÍ og ÍSÍ. Inntaka nýs félags verður að hljóta samþykki ársþings, en þó getur stjórn veitt bráðabirgðaaðild til næsta ársþings.

5.grein
Úrsögn aðildarfélaga úr UMSS getur aðeins farið fram á ársþingi og er einungis gild ef félagið er skuldlaust við sambandið. Þeim félögum sem eigi hafa tvö ár samfellt gert skil á árgjöldum eða ársskýrslu má víkja úr sambandinu, enn fremur þeim sem að öðru leiti gerast brotleg gagnvart lögum þess. Eigi getur félag, sem gengur úr sambandinu, krafist endurgjalds á fé, sem það hefur lagt til sambandsins, eða nokkurs hluta af eignum þess. Brottrekstur félags skal staðfestur á ársþingi.

6.grein
Aðildarfélögum UMSS er skylt að halda aðalfund árlega og ber að tilkynna þá með tveggja vikna fyrirvara til UMSS. Hvert félag skal gera skýrslu eftir hvert starfsár um hag sinn og starfsemi eftir fyrirmælum UMFÍ og ÍSÍ. Félagatal, ársreikningur og stjórnarskipan skal fært inn í félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ, innan þess frests sem ÍSÍ ákveður. Starfsskýrslum aðildarfélaga og nefnda skal skila til skrifstofu UMSS eigi síðar en  viku fyrir boðað ársþing UMSS.

7. grein

Standi félög ekki við ákvæði 6.gr. þessara laga skal stjórn UMSS halda eftir lottótekjum fyrir viðkomandi ár og er heimilt að svipta félagið fulltrúarétti á ársþingi, þar til skil hafa verið gerð. Þá hefur ÍSÍ eða sérsambönd innan ÍSÍ heimild til þess að meina viðkomandi félagi þátttöku í mótum og viðburðum innan ÍSÍ þar til félagið hefur staðið í skilum samkvæmt lögum og reglugerðum ÍSÍ. Félög sem hafa annað rekstrarár en frá 1. janúar til 31. desember og þurfa þar af leiðandi að skila skýrslu síðar en tilgreindur frestur rennur út, skulu sækja sérstaklega um undanþágu til ÍSÍ og einnig senda erindi þess efnis til stjórn UMSS.

Reglur um félagaskipti fari eftir móta- og keppnisreglum ÍSÍ og lögum sérsambandanna.

III. kafli Um Ársþing

8.grein
Ársþing UMSS skal haldið þar á sambandssvæðinu sem síðasta ársþing eða stjórn UMSS ákveður. Ársþing skal halda eigi seinna en í marsmánuði ár hvert, til þess skal boðað skriflega með mánaðar fyrirvara. Ársþing er löglegt sé löglega til þess boðað. Síðara þingfundarboð, með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir þingið skuli sendar aðildarfélögum, sérráðum og öðrum sem rétt eiga til þingsetu með minnst viku fyrirvara. Tillögur um lagabreytingar frá aðildarfélögum skal senda stjórn UMSS eigi síðar en tveim vikum fyrir ársþing og skulu þær kynntar aðildarfélögum með síðara þingfundaboði.
Stjórn UMSS boðar til aukaþings ef þörf krefur eða um það koma áskoranir frá 1/2  aðildarfélaga. Enn fremur ef um það koma tilmæli frá stjórnum landsambandanna, UMFÍ eða ÍSÍ.

Ákvæði um boðun aukaþings og framkvæmd eru hin sömu og reglulegs ársþings. Óheimilt er að breyta lögum og kjósa nýja stjórn (nema til bráðabirgða) á milli ársþinga nema kallað sé til aukaþings.

9.grein
Ársþing er æðsta stofnun UMSS. Þar skal  stjórn UMSS leggja fram skriflega skýrslu um liðið starfsár svo og endurskoðaðan ársreikning fyrir sama ár. Þingið kýs stjórn, skoðunarmenn reikninga samkvæmt 10. og 11. grein þessara laga svo og kjörnefnd og aðrar starfsnefndir sem við á hverju sinni.

10.grein

Dagskrá ársþings skal vera þessi

  1. Þingið sett
  2. Kosning starfsmanna þingsins
    1. Þingforseti og varaforseti
    2. Þingritari og vararitari
    3. Kosning kjörbréfanefndar
    4. Skýrsla stjórnar
    5. Reikningar sambandsins og sjóða
    6. Kjörbréfanefnd skilar áliti
    7. Atkvæðagreiðsla um reikninga
    8. Ávörp gesta
    9. Mál lögð fyrir þingið sem kynnt hafa verið í fundarboði
    10. Tillögur lagðar fram af þingfulltrúum
    11. Skipan í starfsnefndir
      1. Allsherjarnefnd
      2. Fjárhagsnefnd
      3. Íþróttanefnd
      4. Aðrar nefndir
      5. Nefndarstörf
      6. Þingnefndir skili áliti og tillögur þeirra, sem falla undir síðari dagskrárliði teknar til umræðu og afgreiðslu
      7. Fjárhagsáætlun lögð fram til samþykktar
      8. Kosningar (kosningar skulu vera skriflegar, nema því aðeins að stungið sé upp á jafn mörgum og kjósa skal)
        1. Kosning formanns
        2. Kosning fjögra einstaklinga í stjórn
        3. Kosning þriggja einstaklinga í varastjórn
        4. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara
        5. Kosið í nefndir og ráð sambandsins eftir því sem þing ákveður hverju sinni
        6. Önnur mál
        7. Þingslit

11.grein
Ársþing skal ákveða árgjöld aðildarfélaganna til UMSS fyrir næsta starfsár. Hvert félag greiðir félagsgjöld til sambandsins fyrir hvern reglulegan félaga sem orðinn er 18 ára.  Upphæð félagsgjalda yfirstandandi árs skal greiðast fyrir 31. desember sama ár. Reikningsár UMSS er almanaksárið.

12.grein
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á þingum sambandsins. Til breytinga á lögum þarf þó 2/3 atkvæða. Atkvæðagreiðsla fari fram skriflega sé þess óskað.

13.grein
Formenn aðildarfélaga eru sjálfkjörnir sem fulltrúar á ársþing og varamenn í forföllum þeirra.

Fulltrúafjöldi hvers aðildarfélags ákvarðast að öðru leiti af fjölda félagsmanna.  Tala félagsmanna skal miðuð við tölu gjaldskyldra félaga (18 ára og eldri) við síðustu áramót.

-          2 fulltrúar auk formanns fyrir 0-100 félagsmenn.

-          3 fulltrúar auk formanns fyrir 101-150 félagsmenn.

-          4 fulltrúar auk formanns fyrir 151-200 félagsmenn.

Síðan bætist við einn fulltrúi fyrir hverja byrjaða 100 félagsmenn að 1000 félögum, en einn fulltrúa á hverja byrjaða 200 félaga þar fyrir ofan.

Atkvæðisrétt á þingum sambandsins hafa einungis kjörnir fulltrúar aðildarfélaganna og stjórn UMSS.  Sérhver ungmennafélagi hefur málfrelsi og tillögurétt hvar sem er á fundum ungmennafélaganna. Auk þess eiga seturétt á þinginu með málfrelsi og tillögurétt, fulltrúar í sérráðum UMSS, aðrir sem kjörnir eru í trúnaðarstöður hjá sambandinu og þeir aðrir sem stjórn UMSS býður til þings.

IV. kafli Um Stjórn

14.grein
Stjórn UMSS skipa fimm einstaklingar: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Formaður skal kosinn til eins árs. Stjórnarmenn aðrir en formaður skulu kosnir til tveggja ára og skipta með sér verkum í stjórn. Þá skulu kosnir þrír einstaklingar í varastjórn til eins árs í senn. Gefi stjórnarmaður sem sitja skal áfram kost á sér til formannskjörs er heimilt að kjósa hann og þá annan í hans embætti það sem eftir er kjörtímabilsins. Enn fremur skulu árlega kjörnir tveir skoðunarmenn reikninga. Kjósa skal fulltrúa á þing ÍSÍ það ár sem þing ÍSÍ er haldið, samkvæmt 12. grein laga ÍSÍ.

15.grein
Stjórn UMSS fer með málefni sambandsins milli þinga, eftir þeim reglum og innan þeirra takmarka sem lög og samþykktir setja. Hún veitir móttöku öllu því fé sem sambandinu áskotnast, ávaxtar sjóði þess og fer með þá samkvæmt fjárhagsáætlun samþykktri á ársþingi.

16.grein
Stjórn UMSS skal halda fundi svo oft sem þurfa þykir. Þannig skal boða alla stjórn og varastjórn. Varastjórn hefur aðeins málfrelsi og tillögurétt á þessum fundum nema um forföll sé að ræða í aðalstjórn.

V. kafli Sérráð

17.  grein
Innan UMSS geta starfað sérráð. Ársþing skilgreinir sérráð, ákveður hvaða ráð skulu starfa milli þinga, segir fyrir um skipan þeirra og setur þeim almennar reglur. Þó skal stjórn einnig heimilt að skipa sérráð ef ástæða er til. Stjórn sérráða skal skila ársskýrslu og reikningum til stjórnar UMSS fyrir lok janúar ár hvert. Sérráðum er ekki heimil lántaka fjármuna nema með samþykki stjórnar UMSS. Að öðru leyti starfar sérráð samkvæmt 8. kafla Sérráða 50. - 52. greinar laga ÍSÍ.

18. grein
Sérráð skulu almennt skipuð formönnum aðildarfélaga eða deilda innan aðildarfélaga sem sinna viðkomandi grein, eða fulltrúum þeirra. Sérráðin skipta sjálf með sér verkum og tilnefna formann. Stjórn UMSS staðfestir skipan formanna sérráða.

19. grein
Sérráð skulu annast skipulag mótahalds og viðburða í hlutaðeigandi íþróttagreinum. Sérráð gerir tillögur að reglum um mótahald og aðra starfsemi og staðfestir stjórn UMSS þær. Að fengnum upplýsingum frá sérráðum skal stjórn UMSS semja sameiginlega mótaskrá sem nær til allrar starfsemi á vegum  UMSS og annast birtingu hennar á almennum vettvangi. Sérráð skulu sjá til þess að mótshaldarar á vegum þeirra komi upplýsingum um mót og úrslit til stjórnar UMSS svo fljótt sem verða má.

 

VI. kafli Önnur Ákvæði

20. grein
Komi fram tillaga á löglega boðuðu ársþingi UMSS um sambandsslit skal hún þegar tekin til umræðu og atkvæði um hana greidd. Því aðeins 4/5 atkvæðisbærra fulltrúa á þingi samþykki tillöguna skoðast hún samþykkt, þá skal þingi slitið tafarlaust. Fráfarandi stjórn situr áfram í fullu umboði og skal hún boða til aukaþings innan tveggja mánaða. Þá skal tillagan borin upp að nýju. Sé hún samþykkt með 4/5 greiddra atkvæða fulltrúa á þinginu, skulu það heita lögleg sambandsslit. Verði tillagan aftur á móti felld skulu þingstörf halda áfram þar sem frá var horfið á fyrra þingi.

21. grein
Komi til sambandsslita samkvæmt 21. grein eða ef starfsemi UMSS fellur niður skulu sjóðir þess og aðrar eignir vera í vörslu UMFÍ þar til stofnað hefur verið annað samband aðildarfélaga UMFÍ í Skagafjarðarhéraði.

22. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi og með þeim úr gildi fallin öll eldri lög Ungmennasambands Skagafjarðar.

Lög þessi samþykkt á ársþingi 1989. Breytt 1990, 1991, 1994, 1995, 1999, 2000, 2002, 2011, 2018, 2022 og 2023