103. Ársþing UMSS

Skrifað undir samstarfsamning ULM 2023 sem fram fer á Sauðárkróki daganna 3.-6. ágúst nk.
Skrifað undir samstarfsamning ULM 2023 sem fram fer á Sauðárkróki daganna 3.-6. ágúst nk.

Þjónusta við aðra er leigan sem við borgum fyrir herbergið hér á jörðu sagði Muhamed Ali.  Ungmennahreyfingin er farvegur fyrir okkur til að borga þessa leigu.  Við sem störfum í ungmenna- og íþróttahreyfingunni höfum kannski ekki spurt okkur af hverju við erum að standa í þessu sjálfboðaliðastarfi sem of oft er vanþakklátt og stundum fjandsamt.  Í mínu tilfelli er þetta leiðin til að greiða þessa leigu til samfélagsins á þann hátt þar sem ég tel mestan árangur verða af mínu sjálfboðastarfi“ sagði Gunnar Þór Gestsson formaður UMSS þegar hann ávarpaði kjörfulltrúa og gesti þegar hann setti 103. Ársþing UMSS í Ljósheimum í gær.

38 kjörfulltrúar voru þar mættir af 62 auk gesta; Garðar Svansson frá ÍSÍ, Jóhann Steinar Ingimundarsson formaður UMFÍ, Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ, Málfríður Sigurhansdóttir UMFÍ og Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar.

Gunnar Þór lagði til að Garðar Svansson yrði kosinn þingforseti og Málfríður Sigurhansdóttir varaþingforseti, var það samþykkt samhljóða af þinginu. Tóku þau strax til starfa og voru þeir Þorvaldur Gröndal og Óli Björn Pétursson kjörnir ritarar þingsins. Var þá tekið stutt þinghlé, þar sem aðilar sem standa að Unglinglandsmóti UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki 3.-6. ágúst næst komandi skrifuðu undir Samstarfssamning Unglingalandsmóts, eftir myndatökur tók þingið aftur til starfa. Ómar Bragi Stefánsson formaður kjörbréfanefndar fór yfir kjörbréfin og voru mættir eftirtaldir fulltrúar á þingið;

Golfklúbbur Skagafjarðar                               5 (5) fulltrúar

Hestamannafélagið Skagfirðingur                 8 (8) fulltrúar

Siglingaklúbburinn Drangey                         3 (4) fulltrúar

Ungmenna- og íþróttafélagið Smári             5 (8) fulltrúar

Ungmennafélagið Hjalti                               2 (6)fulltrúar

Ungmennafélagið Neisti                               4 (7) fulltrúar

Ungmennafélagið Tindastóll                       11 (15) fulltrúar

Vélhjólaklúbbur Skagafjarðar                        1 (3)fulltrúi

Engir fulltrúar mættu frá Bílaklúbb Skagafjarðar (3) eða Íþróttafélaginu Grósku (3).

Farið var yfir skýrslustjórnar og ársreikninga. Garðar Svansson frá ÍSÍ kom upp pontu og veitti þeim Hirti Geirmundssyni og Magnúsi Helgasyni Silfurmerki ÍSÍ fyrir þeirra sjálfboðavinnu í þágu íþróttamála en þeir Hjörtur og Magnús hafa eytt mörgum árum í stjórn sinna félaga.

Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ tók þá til máls og veitti Gullmerki UMFÍ til Hrafnhildar Pétursdóttir fyrir hennar óeigingjarna starf sem sjálfboðaliði sem hún sinnir enn að krafti. Nokkrir aðrir einstaklingar eiga hjá okkur merki þar sem þau komust ekki á þingið og munum við finna tækifæri á næstu vikum til að afhenda þessum aðilum þau.

Ómar Bragi Stefánsson kynnti 50+ mótið, drulluhlaupið og forsetahlaupið sem eru íþróttaviðburðir UMFÍ auk Unglingalandsmótsins sem fram fer hér á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina, að auki sagði hann þingfulltrúm frá ákvörðun stjórnar UMSS sem samþykkti á síðasta stjórnarfundi fyrir árþing að allir keppendur á aldrinum 11-18 ára úr Skagafirði geti skráð sig frítt á mótið. 

Ársreikningar voru þá bornir upp til umræðu, en engar spurningar bárust úr sal og voru ársreikningar 2022 bornir upp til samþykktar og voru þeir samþykktir samhljóða af þinginu.

Áður en farið var í nefndarstörf á þingtillögum, var boðið upp á mat; Lambalæri og meðlæti og svo frönsk súkkulaði kaka í eftirrétt með rjóma og ávöxtum, sem Siggi Doddi og Kristín Elfa matreiddu fyrir þingið.

16 tillögur voru lagðar fram, flestar voru samþykktar samhljóða, nokkrum var breytt og tvær voru samþykktar að hluta, með því skilyrði að stjórn UMSS myndi vinna þær en frekar og kynna niðurstöður á næsta formannafundi UMSS sem verður boðað til í lok vors. En þessar þingtillögur þurfa ekki að vera samþykktar af ársþingi til að þær taki gildi, samkvæmt þingforseta.

Gunnar Þór Gestsson var kjörin til áframhaldandi formennsku, auk Þorvaldar Gröndal og Jóel Þórs Árnasonar. Áfram sitja þær Kolbrún Passaro og Þuríður Elín Þórarinsdóttir. Í varastjórn til eins árs voru þau Elvar Einarsson, Hrefna Reynisdóttir og Indriði Ragnar Grétarsson kjörin.

Við þökkum fyrir gott þing og hlökkum til að sjá ykkur á Unglingalandsmóti UMFÍ daganna 3.-6. ágúst hér á Sauðárkróki.

Hrafnhildur Pétursdóttir fékk Gullmerki UMFÍ afhent af Jóhanni Steinari Ingimundarsyni formanni UMFÍ.

 

 

Þingfulltrúar og gestir

Hjörtur og Magnús með Garðari frá ÍSÍ sem sæmdi þá Silfurmerki ÍSÍ

 

Gunnar formaður UMSS og varaformaður UMFÍ, Auður Inga framkvæmdastjóri UMFÍ, Jóhann Steinar formaður UMFÍ, Ómar Bragi landsfullrúa UMFÍ og Málfríður situr í stjórn UMFÍ.

Gunnar Þór Gestson formaður UMSS