104. ársþing UMSS 2024

104. ársþing UMSS haldið í Félagsheimilinu Tjarnabæ.
104. ársþing UMSS haldið í Félagsheimilinu Tjarnabæ.

Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) hélt ársþing sitt í félagsheimilinu Tjarnabæ laugardaginn 27. apríl síðastliðinn.  Þingforseti var Gunnar Sigurðsson og stýrði hann þinginu af röggsemi og jafnframt léttleika.  Alls voru 37 þingfulltrúar mættir til þings af 59 mögulegum frá 8 aðildarfélögum af 10. 

Skýrsla stjórnar var flutt af framkvæmdastjóra UMSS, Thelmu Knútsdóttur og kynnti hún einnig reikninga sambandsins.  Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og um þær urðu góðar umræður í þingnefndum.  Þær voru allar samþykktar samhljóða, þar á meðal fjárhagsáætlun UMSS eftir lítilsháttar breytingar frá þingnefnd. 

Lítil breyting varð á stjórn UMSS. Að því undanskildu að Aldís Hilmarsdóttir kom í stað Jóels Þórs Árnasonar, sem fór í varastjórn UMSS. Gunnar Þór Gestsson var endurkjörinn formaður UMSS.

Stjórn UMSS skipa nú þau Gunnar Þór Gestsson formaður, Þuríður Elín Þórarinsdóttir gjaldkeri, Þorvaldur Gröndal ritari, Aldís Hilmarsdóttir og  Kolbrún Marvia Passaro.  Í varastjórn eru þeir Elvar Einarsson, Indriði Ragnar Grétarsson og Jóel Þór Árnason. 

Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Viðar Sigurjónsson, sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ. Hann sá jafnframt um, fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ, að sæma Gunnar Þór Gestsson, formann UMSS, Gullmerki ÍSÍ fyrir mikil og góð störf í þágu íþrótta en Gunnar Þór hefur lengi sinnt leiðtogastörfum í íþróttahreyfingunni, m.a. sem formaður Umf. Tindastóls, sem formaður UMSS, í stjórnarstörfum á vegum UMFÍ og einnig hefur hann átt sæti í nefndum og ráðum á vegum ÍSÍ.

Fulltrúi UMFÍ á þinginu var Málfríður Sigurhansdóttir, hún sá um að veita hjónunum Unu Aldís Sigurðardóttir og Stefáni Guðmunssyni starfsmerki UMFÍ fyrir þeirra framlag til íþróttahreyfingunnar í Skagafirði, auk þeirra var Þorvaldur Gröndal  veitt starfsmerki UMFÍ. Þorvaldur er ritari stjórnar UMSS auk þess hefur hann setið nokkra vinnuhópa innan hreyfingarinnar. Íþróttakempan og kennarinn Karl Lúðvíksson var sæmdur Gullmerki UMFÍ. Karl er þekktur fyrir störf sín og er fastagestur á Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið er ár hvert. Karl, sem er kominn á áttræðisaldur, er svokallaður íþróttaálfur Skagafjarðar og er hann enn að. Hann er m.a. með tíma í Íþróttahúsinu í Varmahlíð, keppir á meistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum og kennir skyndihjálp við Farskóla Norðurlands vestra.

 
Gunnar Þór tekur við Gullmerki ÍSÍ frá Viðari Sigurjónssyni.                 Una, Stefán og Þorvaldur fá afhent Starfsmerki UMFÍ frá Málfríði Sigurhansdóttir.