51. Sambandsþing UMFÍ, Laugarbakka í Miðfirði.

51. sambandsþing UMFÍ var haldið að Laugarbakka í Miðfirði daganna 11. - 13. október. Sambandsþing UMFÍ er haldið annað hvert ár og er það æðsta vald í málefnum UMFÍ. 

Það sem stóð uppúr, var að UMSS eignaðist fulltrúa í aðalstjórn UMFÍ, Gunnar Þór Gestsson varaformaður UMSS, sem sat í varastjórn UMFÍ síðasta tímabil bauð sig fram í aðalstjórn UMFÍ og náði kjöri, en það skiptir afar miklu máli fyrir allt íþróttastarf í Skagafirði að hafa öflugan talsmann í aðalstjórn UMFÍ.

Einnig mun félögum í UMFÍ fjölga talsvert á næstu dögum, en samþykkt var með nær öllum atkvæðum mættra kjörfulltrúa að veita Íþróttabandalögum landsins inngöngu í UMFÍ. Þrjú íþróttabandalög hafa þegar sótt um inngöngu á þessum tímamótum, Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalag Akranes (ÍA).

Stjórn UMFÍ

Haukur Valtýsson var sjálfkjörinn formaður UMFÍ til næstu tveggja ára á sambandsþingi UMFÍ. Í aðalstjórn voru endurkjörin Guðmundur Sigurbergsson frá UMSK, Gunnar Gunnarsson frá UÍA, Jóhann Steinar Ingimundarson frá UMSK og Ragnheiður Högnadóttir frá USVS.  

Gunnar Þór Gestsson frá UMSS og Sigurður Óskar Jónsson frá USÚ sem áttu sæti í varastjórn UMFÍ síðasta tímabil voru kjörnir inn í aðalstjórn UMFÍ.

Í varastjórn voru kjörin Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir frá UDN, Gissur Jónsson frá HSK, Hallbera Eiríksdóttir frá UMSB og Lárus B. Lárusson frá UMSK. Þau Elísabet, Gissur og Hallbera eru ný í varastjórn UMFÍ. Helga Jónsdóttir frá UMSK ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í varastjórn UMFÍ.

 

Aðild að UMFÍ

Fulltrúar sambandsaðila UMFÍ samþykktu á sambandsþingi UMFÍ með nær öllum atkvæðum umsókn íþróttabandalaga að UMFÍ. Þetta er í fyrsta sinn sem íþróttabandalög fá inngöngu í UMFÍ en undirbúningur að þessu ferli hefur staðið yfir í tvo áratugi. Við inngönguna fá íþróttabandalögin stöðu sambandsaðila innan UMFÍ. „Hreyfingin verður öflugri við þetta. Við horfum til framtíðar. Nú getum við sameinað krafta okkar og orðið öflugri samtök en áður,‟ sagði Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.

Þau íþróttabandalög sem hafa staðfest umsókn sína eru Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalag Akraness (ÍA).

  • Þegar íþróttabandalög bætast við UMFÍ fá þau stöðu sambandsaðila á sama hátt og önnur íþróttahéruð landsins.
  • Hvert og eitt bandalag þarf að sækja um inngöngu og geta þau sem ekki vilja gera það staðið utan UMFÍ.
  • Félög UMFÍ með beina aðild munu áfram halda aðild sinni að UMFÍ en í gegnum íþróttabandalög á sama hátt og flest aðildarfélög UMFÍ í dag. Í þeim tilvikum þar sem íþróttabandalag hefur ekki sótt um aðild verður staða félags með beina aðild óbreytt.
  • Með tillögum vinnuhóps um aðild hafa hagsmunir núverandi sambandsaðila varðandi lottótekjur og fjölda þingfulltrúa verið tryggðir.

Heiðranir

Örn Guðnason og Hrönn Jónsdóttir voru sæmd gullmerki UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ. Þau sátu bæði í fráfarandi stjórn UMFÍ.

Örn Guðnason var varaformaður UMFÍ síðastliðin fjögur ár. Hann var ritari stjórnar UMFÍ 2007-2011 og 2013-2015. Hann sat samtals í 10 ár í stjórn UMFÍ.

Hrönn Jónsdóttir, var ritari UMFÍ, hún sat í stjórn UMFÍ síðastliðin sex ár. Hún var fyrst meðstjórnandi 2013-2015 og tók svo við ritarastöðu stjórnar 2015-2019.