Ánægjuvogin og kostir íþrótta

Ánægjuvogin byggir á spurningalistum sem Rannsóknir og greining leggur fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla um allt land. Sá hluti spurningalistanna sem snýr að íþróttum og skipulögðu æskulýðsstarfi er í samstarfi við ÍSÍ og UMFÍ. Niðurstöðurnar hafa frá 2012 verið nýttar til að fylgjast með þróun og ánægju íþrótta og íþróttaiðkunar 13-15 ára ungmenna.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, og fulltrúar íþróttahreyfingarinnar kynntu niðurstöður Ánægjuvogarinnar 2022 fyrir Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í gærog öðrum sérfræðingum ráðuneytisins.

Margrét Lilja ræddi um tækifærin sem felast í nýtingu upplýsinga úr Ánægjuvoginni, kosti skipulags íþróttastarfs fyrir börn og ungmenni, þátttöku barna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og margt fleira. Ráðherra tók afar vel í pælingarnar og kom með góðar vangaveltur um málið og ýmislegt fleira sem getur nýst til framtíðar og öðrum þáttum sem snúa að farsæld barna og ungmenna.

Árið 2022 var niðurstöðum Ánægjuvogarinnar skipt upp eftir heilbrigðisumdæmum landsins eins og lýðheilsuvísum Embættis landlæknis. Áður var þeim skipt upp eftir íþróttahéruðum. Að auki fékk hvert félag sem er með ákveðinn lágmarksfjölda iðkenda blað með lykiltölum úr niðurstöðum Ánægjuvogarinnar sem nýtast félaginu.

Á meðal þeirra þátta sem skoðaðir eru í Ánægjuvoginni er ánægja iðkenda á æfingum, tengsl íþróttaiðkunar við vímuefnaneyslu, námsárangur, andlega og líkamlega heilsu, svefn og neyslu orkudrykkja svo fátt eitt sé nefnt.

Niðurstöður Ánægjuvogarinnar 2022 gefa glögga mynd af kostum þess að börn og ungmenni stundi íþróttir með félagi. Andleg og líkamleg heilsa ungra iðkenda er betri hjá þeim sem stunda íþróttir en þeim sem gera það ekki, þeir sofa betur og gengur betur í skóla.

Áskoranir

Í niðurstöðum Ánægjuvogarinnar í fyrra kom skýrt fram að um helmingur barna sem kemur frá heimilum þar sem eingöngu íslenska er töluð stundar æfingar með íþróttafélagi. Öðru máli gegnir um nemendur af erlendum uppruna sem og nemendur sem skilgreina sig kynsegin. Þessir tveir hópar stunda síður íþróttir en aðrir.  

Ef iðkun er skoðuð eftir kynjum kom í ljós að 42% stúlkna stunda íþróttir með íþróttafélagi fjórum sinnum í viku eða oftar og 19% 1–3 sinnum í viku. Á sama tíma svöruðu 46% drengja því að þeir stunduðu íþróttir með félagi fjórum sinnum í viku eða oftar og 18% 1–3 sinnum í viku.

Á hinn bóginn er mun minni ástundum í hópi þeirra nemenda sem skilgreinir sig kynsegin/annað en 66% þeirra sem þátt tóku í könnuninni stunduðu ekki íþróttir með íþróttafélagi. Einungis 16% stunda íþróttir með íþróttafélagi fjórum sinnum í viku eða oftar og 18% 1–3 sinnum í viku.

Besta forvörnin er að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi

Niðurstöður Ánægjuvogarinnar 2022 árétta mikilvægi þess að halda börnum í skipulögðu íþróttastarfi, hampa fyrirmyndum og gæta þess að íþróttir séu fyrir alla, því yfirgnæfandi meirihluti iðkenda er ánægður með íþróttafélagið sitt, þjálfarann sinn og æfingaaðstöðuna og upplifir gott félagslíf með liðinu.

Til viðbótar hefur verið sýnt fram á að þeim börnum og ungmennum sem stunda íþróttir í skipulögðu starfi líður betur en hinum. Þau eru líka ólíklegri til að nota vímuefni, nikótín og orkudrykki.

Hér má smella og skoða niðurstöður Ánægjuvogarinnar og skýrslur fyrir allt landið