Andleg heilsa íþróttafólks

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn var 10. október sl. Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hefur af því tilefni nýtt októbermánuð til að vekja athygli á málefnum tengdum andlegri heilsu.

Á tímum kórónaveirufaraldursins snerust áhyggjur margra að andlegu álagi á íþróttafólk enda mikil óvissa í kringum æfingar og keppni í íþróttum á þeim tíma. Íþróttamannanefnd IOC setti af stað könnun árið 2020 meðal íþróttafólks og kom þar fram að 32 prósent af þeim 4.000 íþróttamönnum og fylgdarliði sem svöruðu könnuninni, töldu að geðheilsa væri stærsta áskorunin sem þeir stæðu þá frammi fyrir. Í kjölfarið hafa helstu styrktaraðilar Alþjóðaólympíunefndarinnar snúið bökum saman og unnið m.a. fræðsluefni til stuðnings við andlega heilsu íþróttafólks.

Meðal verkefna má nefna herferðina "The Pause" sem tryggingafyrirtækið Allianz fjármagnaði. Útbúið var myndefni þar sem hópur ýmissa sérfræðinga útskýrir mikilvægi núvitundar og knýr samtalið áfram um geðheilsu. Herferðin kemur því á framfæri að það er ekkert rangt við það að þurfa að taka sér hlé, taka eitt skref aftur á bak og endurmeta stöðuna. Forgangsraða upp á nýtt. Huga að andlegri heilsu til jafns við líkamlega heilsu. 

Slóð á efni herferðarinnar The Pause.

IOC leggur áherslu á geðheilbrigði í októbermánuði og hefur notað miðilinn Athlete 365 til að miðla efni er varðar andlega heilsu til Ólympíufara og afreksíþróttafólks, til fræðslu og stuðnings. Þar má finna ýmislegt gagnlegt efni sem er opið öllum: #MentallyFit - Athlete365 (olympics.com)