Formannafundur ÍSÍ 2023

Árlegur Formannafundur ÍSÍ var haldinn föstudaginn 24. nóvember í nýjum húsakynnum íþróttafélagsins Fram í Úlfarsárdal. Mæting var nokkuð góð en um 100 formenn og framkvæmdastjórar sambandsaðila ÍSÍ mættu ásamt stjórn og starfsfólki ÍSÍ. Fundarstjórn var í höndum Þóreyjar Eddu Elísdóttur, 1. varaforseta ÍSÍ og fundarritari var Jón Reynir Reynisson, starfsmaður ÍSÍ.

Fyrir fundinn var boðið upp á stuttar kynningar um mikilvæg málefni er tengjast íþróttum og íþróttastarfsemi og voru þær opnar öðrum fulltrúum sambandsaðila, óháð þátttöku á formannafundinum.  Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, bauð viðstadda velkomna og bauð fyrirlesara til leiks einn af öðrum.

Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ hóf leik með kynningu á sjálbærum íþróttamannvirkjum en hún vinnur sem umhverfisverkfræðingur með áherslu á sjálfbærni og hafði því mikið um málefnið að segja. Hún fór yfir nýjar áherslur, útskýrði hvað sjálfbær íþróttamannvirki þýða og hvaða þýðingu þau hafa í samfélagi okkar.   

Þórarinn Alvar Þórarinsson, starfsmaður á Fræðslu- og almenningsíþróttasviði ÍSÍ, og Daði Rafnsson, doktorsnemi í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík og fagstjóri á afrekssviði Menntaskólans í Kópavogi kynntu sálfærniþjálfun í íþróttum með aðferðarfræði 5C og hvernig þessi þjálfun getur gert íþróttastarf betra ef farið er í andlega þjálfun með skilmerkilegum og skipulögðum hætti. Tekin voru dæmi um slíka þjálfun hjá Breiðabliki og Fylki og hverju sú þjálfun hefur skilað.

Síðasta erindið fjallaði um íþróttir og farsæld barna. Sólveig Rósa Sigurðardóttir og Halla Björk Marteinsdóttir frá Barna- og fjölskyldustofu, kynntu verkefnið og fóru yfir það hvernig samvinna og samtal á milli íþróttanna, skóla, heimila og Barna- og fjölskyldustofu ætti að vera, svo að börn, sem þurfa á aðstoð og stuðningi að halda eða búa við erfiðar aðstæður, geti notið sín sem best með hjálp þeirra er koma að málunum á þessum stöðum.  

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, setti svo Formannafundinn og ávarpaði gesti. Hann fór yfir afreksmál og nýliðna ráðstefnu sem fjallaði um stefnumótun í afreksíþróttum. Þá fjallaði hann um svæðisskrifstofur íþróttahreyfingarinnar og hvernig skipulag þeirra er líklegt til að gera íþróttastarf á Íslandi ennþá betra og markvissara. 

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ flutti skýrslu stjórnar og var þar stiklað á stóru yfir það sem gerst hefur frá Íþróttaþingi ÍSÍ 2022. Fór hann yfir helstu breytingar á skipulagi skrifstofu og breytingar í starfsmannamálum. Hörður Þorsteinsson, gjaldkeri ÍSÍ, fór svo yfir fjármál ÍSÍ. Eftir þessar yfirferðir var orðið gefið laust og spunnust góðar og gagnlegar umræður í framhaldinu.  

Þá voru tekin fyrir mál sem framkvæmdastjórn lagði fyrir fundinn en þau voru tvö að þessu sinni; Svæðaskrifstofur ÍSÍ og UMFÍ og svo málefni afreksíþrótta. Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, fór yfir svæðisskrifstofur og hvernig skipulag þeirra væri hugsað svo íþróttastarf yrði unnið á betri og skilvirkari hátt en áður hefði verið gert. Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, fór svo yfir hugmyndir og málefni um afreksmál og nýja sýn í þeim málum. Í framhaldinu var orðið laust og spunnust aftur góðar og gagnlegar umræður um þessi málefni, en heyra mátti að almenn ánægja væri með svæðisskrifstofur og hugmyndina um nýja afreksstefnu á Íslandi. 

Umræða um önnur mál og framtíðarsýn ÍSÍ urðu svo lokapunktar fundarins og var svo fundargestum boðið til kvöldverðar í boði ÍSÍ að fundi loknum.

Glærur um skýrslu stjórnar, fjárhagsupplýsingar og svæðisskrifstofur má finna hér.  Einnig glærur Þóreyjar Eddu um sjálfbær íþróttamannvirki.