Fréttir frá UMFÍ

Opnað var í dag fyrir umsóknir í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ. Tilgangur sjóðsins er að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar, meðal annars með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi. 

Á síðasta ári veitti sjóðurinn styrki upp á samtals 16,8 milljónir króna til ýmissa verkefna. Þar á meðal hlaut Ungmennafélagið Einherji á Vopnafirði styrk vegna þjálfaranámskeiðs í Danmörku, ýmsar deildir Tindastóls og fleiri félaga fengu samskonar styrki, knattspyrnudeild Umf Selfoss fékk styrk vegna fyrirlestrar um svefn, næringu og ýmis félög fengu fræðslustyrki og styrki til útbreiðslu íþrótta og tiltekinna greina í skólum og víðar.

Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar sambandsaðila UMFÍ sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afla sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem gæti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmennafélagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.

Hægt er að senda inn umsóknir í sjóðinn til 1. október næstkomandi. 

Umsóknarfrestir eru tveir á ári, 1. apríl og 1. október. Úthlutun fer fram sem næst 1. maí og 1. nóvember ár hvert.  

 

Ítarlegri upplýsingar um Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ

Smella hér til að sækja um styrk