Héraðsmet í Frjálsum íþróttum

Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir í UMSS náði frábærum árangri á Reykjavíkurleikunum 2018 sem háðir voru í Laugardalshöllinni laugardaginn 3. febrúar. Leikarnir eru árlegt boðsmót þar sem flest af besta frjálsíþróttafólki landsins keppti auk erlendra gesta frá mörgum löndum. Þrír Skagfirðingar kepptu á mótinu og stóðu sig með sóma.

Þóranna varð í 2. sæti í hástökki kvenna og stökk 1,76 m, sem er nýtt skagfirskt met. Gamla metið átti hún sjálf en það var 1,74 m, sett á MÍ í fyrra. Þessi góði árangur tryggði Þórönnu líka keppnisrétt á NM U23, sem fram fer í Gavle í Svíþjóð 11.- 12. ágúst í sumar.

Ísak Óli Traustason varð í 5. sæti í langstökki þar sem hann stökk 6,96 m og í 8. sæti í 60 m hlaupi á 7,19 sek.  Sveinbjörn Óli Svavarsson hljóp 60 m á 7,33 sek.

Öll úrslit mótsins má nálgast HÉR .