Íslenskar getraunir

Vegna mikillar þátttöku íslenskra tippara og góðrar afkomu á árinu 2020 hefur stjórn Íslenskra getrauna ákveðið að úthluta 50,3 milljónum króna styrk til afreksdeilda í knattspyrnu, körfuknattleik og handknattleik. Enn fremur hefur verið ákveðið að úthluta 10 milljónum króna í aukaframlag til þeirra 60 félaga sem hafa selt mest og fengið flest áheit vegna sölu á getraunaseðlum.

Áætlað heildarframlag Íslenskra getrauna til íþróttahreyfingarinnar fyrir árið 2020 er rúmlega 200 milljónir króna.

„Það er ánægjulegt að Íslenskar getraunir geti bætt við rúmlega 60 milljón króna framlagi til íþróttafélaganna á þessum erfiðu tímum vegna Covid ástandsins. Á þessu ári hefur viðskiptavinum Getrauna fjölgað umtalsvert og svo virðist sem margir tipparar hafi snúið frá erlendum ólöglegum veðmálasíðum og beint viðskiptum sínum til Getrauna og styðja þannig við bakið á íþróttafélögunum á Íslandi. Aukin sala á íþróttagetraunum er grundvöllur fyrir auknum framlögum Íslenskra getrauna til íþróttafélaganna“ segir Pétur Hrafn Sigurðsson deildarstjóri hjá Íslenskum getraunum.

Meðfylgjandi töflur sýna skiptingu á úthlutun til félaganna. Annarsvegar til félaga í knattspyrnu, körfuknattleik og handknattleik og hinsvegar skiptinguna til félaga sem hafa selt getraunaseðla og fengið áheit frá tippurum á árinu 2020.