Landsmót UMFÍ 50+ í Stykkishólmi

Búið er að opna fyrir skráningar á Landsmót UMFÍ 50+ sem fram fer í Stykkishólmi dagana 23. – 25. júní. Kerfið er mjög einfalt og þægilegt í notkun og er vel mögulegt að þátttakendur fyrri móta kannist við það.

Við skráningu þurfa notendur aðeins að fylgja og lesa vel það sem upp kemur á skjánum.

Eftir að viðkomandi hefur skráð sig til þátttöku á mótinu, skrifað nafn og helstu upplýsingar þá er hægt að skrá sig í greinar.

Fólk getur skráð sig í eins margar greinar og það langar til að taka þátt í.

Á næstu dögum eftir skráningu birtist reikningur í heimabanka þess sem er skráður greiðandi á mótinu. Greiðsla er forsenda þess að geta tekið þátt í mótinu og fá afhent armband, sem gildir sem þátttökumiði á Landsmóti UMFÍ 50+.

 

Fjölbreyttar greinar

Keppnisgreinar Landsmóts UMFÍ 50+ eru fjölbreyttar og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Þátttökugjald er 5.500 krónur fyrir 50 ára og eldri. Þátttakendur eru beðnir um að koma við í þjónustumiðstöð mótsins og sækja hvítt armband, sem gildir á alla keppni og viðburði mótsins. Kaupa þarf sérstakan aðgang á matar- og skemmtikvöldið og kostar hann 4.000 krónur.

Á meðal keppnisgreina eru: boccía, götuhlaup (5 km), ringó, golf, sund, bdrge, hjólreiðar, hestaíþróttir, frjálsar íþróttir og margt fleira.

Margt í boði fyrir 18 ára og eldri

Nokkrar greinar eru opnar fyrir yngri þátttakendur. Þeir sem hvorki eru fimmtugir eða eldri eða verða það á árinu geta keypt rautt armband á mótssvæðinu. Rauða armbandið gildir á ákveðna viðburði, bæði einstaka keppni og kynningar og kennslu.

Rauð armbönd kosta 2.000 krónur. Í dagskránni er hægt að sjá hvaða aðgang hvít og rauð armbönd veita. Þátttakendur með rauð armbönd geta m.a. tekið þátt í frisbígolfi, petanque, pílukasti, hlaupaskotfimi, badmintoni og borðtennis.

 

Smelltu hér og skoðaðu dagskránna