MÍ 11-14 ára í frjálsum íþróttum

Meistaramót Íslands 11-14 ára fór fram á Sauðárkróksvelli um helgina. Um það bil 230 krakkar frá sautján félögum kepptu á mótinu. Þrjú mótsmet féllu og mikið var um bætingar hjá þessu unga og efnilega íþróttafólki.

HSK/Selfoss sendi sterkt og fjölmennt lið á mótið og sigraði í heildarstigakeppninni með 943 stig. FH varð í öðru sæti með 680 stig og UFA í því þriðja með 268 stig.

Þrjú mótsmet um helgina

Patrekur Ómar Haraldsson Breiðablik setti mótsmet hjá 11 ára piltum, Ísold Sævarsdóttir FH setti mótsmet hjá 13 ára stúlkum og Björg Gunnlaugsdóttir ÚÍA setti mótsmet í flokki 14 ára stúlkna. Öll þrjú mótsmetin voru sett í 600 metra hlaupi.

Keppendur UMSS

Þrettán keppendur voru skráðir á mótið frá UMSS. Voru þau flest að taka þátt á sínu fyrsta stórmóti og gekk þeim öllum vel. Súsanna Guðlaug Halldórsdóttir lenti í 3. sæti í kúluvarpi 11 ára stúlkna, Hallgerður H V Þrastardóttir lenti í 4. sæti í spjótkasti og bætti sig í hástökki og kúluvarpi 12 ára stúlkna, Áróra Ingibjörg Birgisdóttir bætti sig í spjótkasti 14 ára stúlkna, Bríet Bergdís Stefánsdóttir bætti sig í spjótkasti 12 ára stúlkna, Matthildur Ingimarsdóttir bætti sig í hástökki stúlkna 12 ára. Aðrir keppendur sem tóku þátt í mótinu voru þau Amelía Ýr Samúelsdóttir, Bryndís Erla Guðmundsdóttir, Efemía Ösp Rúnarsdóttir, Isabelle Lydia Chirikadzi, Jóna Karitas Guðmundsdóttir, Kolfinna Katla Lárusdóttir, Halldór Stefánsson, Trausti Helgi Atlason og Ævar Sigurðsson. Það er gaman að sjá að það er mikil fjölgun og gróska í frjálsíþróttalífi í Skagafirði.

Mikið var um bætingar um helgina og margir sem unnu til verðlauna í fleirri en einni grein. 

Á þessu móti hefur flest okkar fremsta frjálsíþróttafólk hafið ferilinn sinn og nokkrir keppt á Ólympíuleikunum aðeins nokkrum árum síðar. Því er líklegt að mikið af stjörnum framtíðarinnar hafi verið að keppa á Sauðárkróki núna um helgina.

Hér má sjá öll úrslit mótsins og hér má sjá myndir frá mótinu.