Sambandsþing Ungmennafélags Íslands

Sambandsþing Ungmennafélags Íslands var haldið á Hótel Geysi í Haukadal um síðustu helgi. Þingið var vel sótt en um 180 þingfulltrúar og gestir voru mættir við þingsetningu á föstudagskvöldinu. Þinghaldið gekk vel undir styrkri stjórn þingforsetana Þóris Haraldssonar og Olgu Bjarnadóttur. Hér má nálgast ársskýrslu og ársreikninga UMFÍ.

Stærsta málið á þinginu var tillaga sem felur í sér stofnun svæðaskrifstofa íþróttahéraða víða um land í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og stjórnvöld. Af lottógreiðslum til UMFÍ áttu 15% að fara til reksturs svæðaskrifstofanna og 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri. Skv. tillögunni á að koma á fót átta svæðastöðvum með sextán stöðugildum sem munu þjónusta íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti. Tillagan var einróma samþykkt og er næst á dagskrá að ná samningum við ríkið um að það leggi fram sambærilegan fjárstuðning til svæðisskrifstofunnar og UMFÍ og ÍSÍ muni leggja til svo hægt verði að tryggja reksturinn, en tillaga um sama málefni var samþykkt á þingi ÍSÍ fyrr á þessu ári.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var gestur við setningu sambandsþingsins og flutti þar ávarp. Hann sagði að búið væri að tryggja einn starfsmann á hvert starfssvæði, sem tillagan kveður á um, og fjármagn til að viðkomandi geti sinnt vinnu sinni.

UMSS voru veit Hvataverðlaun UMFÍ fyrir gott starf sjálfboðaliða körfuknattleiksdeildar Ungmennafélags Tindastóls. Sjálfboðaliðar félagsins voru mjög sýnilegir og bjuggu til skemmtilega umgjörð fyrir stuðningsfólk félagsins. Sjálfboðaliðar Tindastóls voru til fyrirmyndar og er mikilvægt að vekja athygli á því. Einnig fengu Hvatarverðlaun; ÍBH vegna Haukar í Hafnarfirði hafa vakið athygli víða á ungum iðkendum í körfubolta í hópi Special Olympics. Verkefnið byrjaði afar smátt og fámennt fyrir iðkendur með sérstakar þarfir hjá Haukum. Það hefur sprungið út síðan þá og verið til fyrirmyndar.  Haukar hafa með framúrskarandi hætti fundið lausnir og leiðir til að tryggja að iðkendur fái tækifæri á mótum og viðburðum félagsins. Haukarnir sýna með verkefninu að íþróttir eru fyrir alla og alltaf hægt að finna leiðir svo sem flestir geti stundað þær íþróttagreinar sem fólk hefur áhuga á.  Einnig fékk ÍBR Hvatningarverðlaun fyrir starf knattspyrnufélagsins Þróttar. Þar er í boði mikið framboð íþróttagreina, sem ná til breiðs hóps iðkenda. Eftirtektarverð eru verkefni Þróttara með öllum aldurshópum, barnungum knattspyrnukrökkum, fólki af erlendu bergi brotið og verkefni fyrir nýja íbúa hér á Íslandi, blakhópa á öllum aldri, verkefni fyrir iðkendur í eldri kantinum og þá sem fram til þessa hafa horft fram hjá skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi en hafa fundið sig í rafíþróttum hjá Þrótti.

Aðalstjórn UMFÍ var öll endurkjörin á þinginu. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var einn í kjöri í embætti formanns og var því sjálfkjörinn.  Í aðalstjórn voru kosin þau Guðmundur G. Sigurbergsson, Ungmennasambandi Kjalarnesþings, Gunnar Þ. Gestsson, Ungmennasambandi Skagafjarðar, Gunnar Gunnarsson, Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands, Málfríður Sigurhansdóttir, Íþróttabandalagi Reykjavíkur, Ragnheiður Högnadóttir, Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu og Sigurður Óskar Jónsson, Ungmennasambandinu Úlfljóti. Þau Ásgeir Sveinsson, Héraðssambandinu Hrafna-Flóka, Guðmunda Ólafsdóttir, Íþróttabandalagi Akraness og Hallbera Eiríksdóttir, Ungmennasambandi Borgarfjarðar voru kosin í varastjórn.

UMSS átti rétt á að senda 4 fulltrúa á þingið og sendi fullmannað lið. Þingfulltrúar sambandsins voru þau Gunnar Þór Gestsson, Kolbrún Marvia Passaro, Thelma Knútsdóttir og Þorvaldur Gröndal.