Svæðisstöðvar íþróttahreyfingarinnar

Svæðisstöðvar íþróttahreyfingarinnar

UMFÍ og ÍSÍ eru að koma á fót átta svæðisstöðvum með stuðningi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Samtökin undirrituðu samning um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með því að koma á fót svæðisstöðvum og hvatasjóði. Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Tillögur um stofnun svæðisstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ vorið 2023 og á þingi UMFÍ haustið 2023.

Hlutverk og markmið svæðisstöðvanna er að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar. Íslandi er skipt upp í 25 íþróttahéruð og er svæðisstöðvunum átta ætlað að styðja við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum, gera íþróttahéruðunum kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni þeim tengd, bæta þjónustu við iðkendur og auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Horft er til þess að fjölga tækifærum og gefa sem flestum tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangri að markmiði. Tillögur um stofnun svæðisstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ vorið 2023 og á þingi UMFÍ haustið 2023.

Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna eru átta um allt land og eru tvö stöðugildi á hverri stöð. Rúmlega 200 einstaklingar sóttu um störfin 16 sem auglýst voru.

Verkefnastjóri

Hanna Carla Jóhannsdóttir stýrir innleiðingu og samræmingu á svæðisstöðvunum. Hanna Carla er íþróttafræðingur að mennt og með meistaragráðu í forystu og stjórnun. Hanna Carla hefur aðsetur í þjónustumiðstöð UMFÍ. Netfang hannacarla@siu.is 

Hanna Carla segir að á undanförnum vikum hafi verið tekin viðtöl við umsækjendur og verið frábært að sjá hversu margir sýndu störfunum áhuga. Nú sé búið að ráða í 14 stöðugildi af 16 og vonir bundnar við að ráða í störfin sem eftir eru öðru hvoru megin við helgi.

Fyrstu skrefin voru unnin með tengiliðum sem tilnefndir voru frá hverju íþróttahéraði í ráðningarferlinu í samstarfi við Hagvang. Næstu skref í ferlinu tengjast praktískum atriðum á borð við aðgengi að gagnasöfnum og staðsetningu viðkomandi starfsmanns á hverjum stað. Í ágúst verður fundað um þjónustusamninga við íþróttahéruð og aðgerðaráætlun mótuð fyrir hvert svæði.

Eftirfarandi 14 einstaklingar voru ráðnir í eftirfarandi stöður:

Höfuðborgarsvæðið: Íris Svavarsdóttir / Sveinn Sampsted

Vesturland: Álfheiður Sverrisdóttir / Heiðar Már Björnsson

Suðurnes: Petra Ruth Rúnarsdóttir / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Austurland: Jóhann Árni Ólafsson / Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Suðurland: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir / Rakel Magnúsdóttir

Vestfirðir: Birna F. S. Hannesdóttir

Norðurland eystra: Hansína Þóra Gunnarsdóttir / Þóra Pétursdóttir

Norðurland vestra: Halldór Lárusson

Halldór Lárusson er með BS Íþróttafræði og MSc viðburðastjórnun. Við bjóðum Halldóri og alla aðra sem voru ráðin til starfa, velkomin.

Ekki er búið að ráða í hina stöðuna sem er í boði á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, vonum við að það rætist fljótlega úr því og einhver sé til í að vinna með okkur.