UMF Tindastóll - Knattspyrnudeild

Framhaldsaðalfundur knattspyrnudeildar Tindastóls var haldinn sl. miðvikudag í Árskóla að viðstöddu fjölmenni. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundastörf deildarinnar, þar sem ársreikningur deildarinnar var m.a. kynntur en ekki tókst að mynda stjórn. Eftir að formaður deildarinnar sagði af sér fyrir skömmu hefur ekki fundist neinn aðili sem tilbúinn er að fylla það skarð. Sama má segja um stjórnina, enginn gaf sig fram og fer því framkvæmdastjóri deildarinnar, Jón Stefán Jónsson, með umboð hennar og formanns.

Skipaður var vinnuhópur sem hefur það hlutverk að finna fólk til að manna stjórn og formannssæti. Hana skipa Sigurður Halldórsson, (Siggi Donna), Gísli Sigurðsson, Þórdís Ósk Rúnarsdóttir og Anna María Oddsdóttir.

Óhætt er að segja að fundarmenn hafi orðið orðlausir yfir reikningum félagsins en gríðarlegur viðsnúningur varð á rekstri deildarinnar á síðasta ári miðað við árið áður. Niðurstaða síðasta árs var tap upp á tæpar ellefu milljónir eða 10.812.340 kr. miðað við 739.274 kr. hagnað árið á undan. Skýringa má finna í hækkun launakostnaðar og tengdra gjalda, þar með kostnað leikmanna. Laun og tengd gjöld fóru úr 17.795.426 kr. í 27.853.449 kr. og annar kostnaður leikmanna fór úr 5.694.448 kr. í 14.962.900 kr. í fyrra. Jákvætt er að tekjur jukust um rúmar tvær milljónir, úr rúmum 42 milljónum í 44.357.810 kr.

Fundargestir voru einhuga um að horfa jákvætt til framtíðar og leysa þann vanda sem upp væri kominn, öllum knattspyrnuiðkendum stórum sem smáum, til heilla.