UMF Tindastóll - Skíðadeild

María Finnbogadóttir. Mynd úr einkasafni.
María Finnbogadóttir. Mynd úr einkasafni.

Skíðakonan úr Tindastól, María Finnbogadóttir, tók þátt í skíðalandsmóti Íslands sem fram fór í Bláfjöllum og Skálafelli um helgina. Vel gekk hjá Maríu sem krækti í gullverðlaun í svigi og alpatvíkeppni

María keppti í stórsvigi í Skálafelli á föstudag og varð í 4. sæti í kvennaflokki og öðru sæti í flokki 16-17 ára. Hún keppti í svigi á laugardeginum 7. apríl og varð aftur í 4. sæti í kvennaflokki sem færði henni 3. sætið í alpatvíkeppni kvenna. 

Alpatvíkeppni er samanlagður árangur í svigi og stórsvigi. Þetta færði henni gullið í svigi í flokki 16-17 ára. Hún hreppti einnig gullið í flokki 16-17 ára í alpatvíkeppninni.

„Það er auðvitað alltaf gaman þegar vel gengur og maður uppsker árangur erfiðis síns og það á svo sannarlega við um Maríu. Veturinn hefur verið henni strembinn svo það er kærkomið að njóta velgengni á lokamótum vetrarins. Hún keppti einnig á tveimur FIS-mótum í svigi á Akureyri 3. apríl og varð í 2. og 3. sæti í þeim mótum,“ sagði Anna J. Guðmundsdóttir móðir Maríu sem vildi koma þökkum á framfæri til styrktaraðila Maríu.

Heimild: Feykir.is