UMFÍ - Fréttabréf 2018

- NÝ PERSÓNUVERNDARLÖG AÐ TAKA GILDI

Alþingi samþykkti ný persónuverndarlög í síðustu viku. Þau taka gildi 15. júlí næstkomandi. Nýja persónuverndarlöggjöfin kveður á um vernd og meðferð persónupplýsinga og munu þau hafa áhrif á á ungmenna- og íþróttafélög landsins. UMFÍ var á meðal umsagnaraðila frumvarpsins og benti á í umsögn sinni að landssambandið vinni að því þessa dagana eins og önnur félagssamtök að bregðast við breyttu umhverfi með aðgerðum til að uppfylla kröfurnar sem gerðar eru í lagaumhverfinu.
Við hvetjum öll aðildarfélög til þess að kynna sér nýju lögin. UMFÍ er að taka saman hagnýt ráð og ábendingar sem verða send út til allra aðildarfélaga um leið og þau liggja fyrir.
MEIRA UM NÝJU LÖGIN

- SAKAVOTTORÐ FYRIR SUMARNÁMSKEIÐIN

Ertu nokkuð að gleyma að sækja um sakavottorð fyrir starfsmanninn? Nú eru sumarnámskeið hafin fyrir börn.

UMFÍ minnir á að sambandsaðilum er óheimilt að ráða einstakling til starfa sem hefur hlotið refsidóma vegna ofbeldisbrota, ávana- og fíkniefnabrota eða vegna kynferðisbrota. Skili starfsmaður ekki inn sakavottorði sínu með umsókn eða við ráðningu þarf að óska eftir því hjá sýslumanni.
Sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða að UMFÍ geri þetta þeim að kostnaðarlausu. Fjöldi félaga hefur nýtt sér þessa þjónustu að undanförnu.

- RAFRETTUFRUMVARPIÐ SAMÞYKKT

Rafrettufrumvarpið svokallaða var samþykkt á Alþingi á þriðjudag. Í lögum um rafrettur eru takmarkanir settar á leyfilegum styrkleika, stærð áfyllinga og notkun þeirra takmörkuð. UMFÍ var á meðal umsagnaraðila frumvarpsins bæði þegar það var lagt fram í tíð Óttarrs Proppé heilbrigðisráðherra og aftur nú eftir að Svandís Svavarsdóttir tók við. 
Í umsögn sinni vísaði UMFÍ til þess að frumvarpið er í samræmi við tillögu sem samþykkt var á 40. sambandsráðsfundi UMFÍ í október 2016. Þar voru sambandsaðilar UMFÍ hvattir til þess að taka höndum saman og standa með tilheyrandi aðilum gegn hvers kyns notkun tóbaks, s.s. reyktóbaks, munntóbaks, neftóbaks, rafrettum eða öðrum afbrigðum tóbaks.

- SKRÁNING Á LANDSMÓTIÐ

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri keppni, hreyfingu og því að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman. Mótið hefur farið fram árlega síðan 2011 og er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri.
Í ár fer mótið fram samhliða LANDSMÓTINU sem er fjögurra daga íþróttaveisla sem fram fer á Sauðárkróki dagana 12. - 15. júlí. Helstu keppnisgreinar Landsmóts UMFÍ 50+ verða á sínum stað á mótnu og keppnisfyrirkomulag fer fram með svipuðum hætti og undandarin ár. Til viðbótar mun framboð á keppnisgreinum, afþreyingu og öðrum viðburðum vera margfalt meira en áður. Þátttakendur mótsins geta keppt í eða prófað fjölda íþróttagreina í bland við götu- og tónlistarveislu. Saman munu gestir Landsmótsins skapa töfrandi minningar.

- UNGLINGALANDSMÓT UMFÍ 2018

Næsta Unglingalandsmót UMFÍ fer fram 2. - 5. ágúst 2018 í Þorlákshöfn. Opnað verður fyrir skráningar á mótið 1. júlí.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Samhliða því er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Unglingalandsmótin hafa hvarvetna vakið mikla athygli og þeir fjölmörgu sem þau hafa sótt hafa verið öðrum til mikillar fyrirmyndar með allri framkomu hvort sem er í keppni eða leik. Nánari upplýsingar má finna hér.

Fóbolti ULM Borgarnes 2015  ULM Þorlákshöfn 2018