UMFÍ Landsmótið

Thelma Knútsdóttir, verkefnastjóri Landsmóts UMFÍ 2018. Mynd: UMFÍ.
Thelma Knútsdóttir, verkefnastjóri Landsmóts UMFÍ 2018. Mynd: UMFÍ.

Thelma Knútsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Landsmótsins sem fram fer á Sauðárkróki í sumar. Á heimasíðu UMFÍ kemur fram að Thelma sé með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Marymount University í Virginíu í Bandaríkjunum. Einnig er hún á heimavelli þar sem hún býr á Sauðárkróki.

Tíðindamaður UMFÍ náði tali af Thelmu en þá var hún uppi á Nöfum á Sauðárkróki að skipuleggja svæðið. Þar verða tjaldsvæði fyrir þátttakendur mótsins og gesti og besta útsýnið yfir bæinn og fjörðinn. Að verki sínu loknu þar hafði hún í hyggju að hitta veitingasala og fleira tengt mótinu.

„Þetta starf leggst mjög vel í mig. Ég er spennt enda nóg að gera þótt skipulagning Landsmótsins sé langt komin,“ segir Thelma Knútsdóttir á umfi.is.

Hún segir undirbúning Landsmótsins ganga vel. „Það er búið að skipuleggja hverja grein og sérgreinarstjórnar klárir. Þetta er allt að koma.“

Íþróttaveisla á Sauðárkróki
Landsmótið á Sauðárkróki er íþróttaveisla sem mun standa yfir dagana 12. – 15. Júlí. Mótið er ætlað 18 ára og eldri. Á sama tíma fer fram Landsmót UMFÍ 50+. Afþreying á því móti verður með því flottasta sem sést hefur.

Á mótinu er hægt að velja fleiri en 30 íþróttagreinar auk skemmtunar og fróðleiks. Þátttökugjald er 4.900kr.

Skráning á Landsmótið hefst 1. apríl.

Meiri upplýsingar um Landsmótið er á slóðinni www.landsmotid.is

Heimild: Feykir.is