UMSS- Íþróttamaður, lið og þjálfari ársins 2021

Á síðasta ári gat Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) og Sveitarfélagið Skagafjörður ekki haldið sína árlegu hátíðarsamkomu þar sem tilkynnt er hver hlaut kosningu íþróttamanns ársins, lið ársins og þjálfara ársins, árið 2020. Á þessum hátíðarsamkomum er öllum þeim sem eru tilnefnir af sínum íþróttafélögum boðaðir og þeim veitt viðurkenningar en einnig fá krakkarnir okkar sem hafa verið tilnefnd til Hvatningarverðlauna UMSS sínar viðurkenningar.

Í ár eru fimm íþróttamenn tilnefndir til Íþróttamanns ársins 2021. Það eru þau; Anna Karen Hjartardóttir kylfingur í Golfklúbbi Skagafjarðar, Bryndís Rut Haraldsdóttir, fótboltamaður í UMF Tindastól, Eva Rún Dagsdóttir, körfuknattleiksmaður UMF Tindastóls, Ísak Óli Traustason, frjálsíþróttamaður í UMF Tindastól, og Mette Moe Mannseth, hestamaður í Hestamannafélaginu Skagfirðingur.

Kosningu lýkur á morgun, en þeir sem kjósa íþróttamenn, lið og þjálfara eru fimm aðilar í stjórn UMSS, þrír fulltrúar frá félags- og tómstundarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar, ritstjóri fréttablaðsins Feykis og forstöðumaður frístunda og íþróttamála í Skagafirði.

Kosið er um þrjú efstu sætin, fyrsta (1.) sæti gefur 10 stig, annað sæti (2.) gefur 7 stig og þriðja (3.) sæti gefur 5 stig.

Til lið ársins eru tilnefnd tvö lið, kvennasveit Golfklúbbs Skagafjarðar og meistaraflokkur kvk. í knattspyrnu UMF Tindastól. Til þjálfara ársins eru þrír aðilar tilnefnir; Guðni Þór Einarsson UMF Tindastóll knattspyrnudeild, Helgi Jóhannesson UMF Tindastóll badmintondeild og Sigurður Arnar Björnsson UMF Tindastóll frjálsíþróttadeild.

Öllum aðildarfélögum og deildum innan UMSS er einnig heimilt að tilnefna einn pilt og eina stúlku sem hlýtur Hvatningarverðlaun UMSS. Tilnefningin skal veitt þeim íþróttamanni sem er áhugasamur, með góða ástundun, sýnir góða hegðun innan vallar sem utan, er góður félagi og telst vera góð fyrirmynd annarra unglinga.

Til Hvatningarverðlauna UMSS árið 2021 eru eftirtaldir aðilar tilnefndir frá:

Golfklúbbi Skagafjarðar; Brynjar Már Guðmundsson og Dagbjört Sísí Einarsdóttir.
Hestamannafélaginu Skagfirðingi; Sveinn Jónsson og Ólöf Bára Birgisdóttir.
Ungmenna- og Íþróttafélaginu Smára; Daníel Smári Sveinsson og Bryndís Erla Guðmundsdóttir.
UMF Tindastól badmintondeild; Emma Katrín Helgadóttir.
UMF Tindastól frjálsíþróttadeild; Amelía Ýr Samúelsdóttir.
UMF Tindastól knattspyrnudeild; Bragi Skúlason og Magnea Petra Rúnarsdóttir.
UMF Tindastól körfuknattleiksdeild; Bogi Sigurbjörnsson og Rebekka Hólm Halldórsdóttir.

Þar sem við héldum ekki neinn viðburð fyrir þá íþróttamenn sem voru tilnefnir af aðildarfélögum UMSS árið 2020 þá er víst rétt að hér komi fram hverjir voru tilnefnir og kjörnir það árið. Fjórir íþróttamenn voru tilnefndir fyrir árið 2020 og varð Ísak Óli Traustason, frjálsíþróttamaður hjá Ungmennafélagi Tindastóls, kjörin íþróttamaður ársins 2020 með 75 stig. Ísak varð Íslandsmeistari í fjölþraut. Í fjölþraut innanhús er keppt í sjö greinum og sigraði hann allar greinarnar. Hann varð einnig Íslandsmeistari í 60 m grind og langstökki.

Aðrir sem tilnefnir voru; Bryndís Rut Haraldsdóttir, fótboltamaður frá UMF Tindastól knattspyrnudeild (66), Arnar Geir Hjartarson, kylfingur frá Golfklúbbi Skagafjarðar (30 stig), og Bjarni Jónasson hestamaður frá Hestamannafélagi Skagafjarðar (27 stig).

Meistaraflokkur kvk. í knattspyrnu var kjörið lið ársins 2020, hlaut 90 stig af 90 mögulegum. Sigur liðsins í Lengjudeild kvenna sumarið 2020 var sérlega glæsilegur þar sem liðið sigraði 15 leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði aðeins einum leik, sem skilaði liðinu 46 stigum, sem er besti árangur knattspyrnuliðs Tindastóls frá upphafi. Eitt annað lið var tilnefnt; Kvennasveit Golfklúbbs Skagafjarðar sem hlaut 49 stig.

Þjálfari(ar) ársins 2020 voru kjörnir þeir Guðni Þór Einarsson og Jón Stefán Jónsson, UMF Tindastóll knattspyrnudeild, kjörnir með 77 stigum, en undir þeirra stjórn tryggði meistaraflokkur kvenna sér sæti í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu sumarið 2021, eftir að hafa sigrað 1. deildina með miklum yfirburðum.

Til þjálfara ársins 2020 voru tveir aðrir aðilar tilnefndir; Auður Herdís Sigurðardóttir, Ungmenna- og íþróttafélaginu Smára (56 stig) og Sigurður Arnar Björnsson UMF Tindastóll frjálsíþróttadeild (66 stig).

Hvatningarverðlaun UMSS 2020 hlutu eftirtaldir einstaklingar hjá:

Golfklúbbi Skagafjarðar, Tómas Bjarki Guðmundsson og Una Karen Guðmundsdóttir.
Hestamannafélaginu Skagfirðingi, Kristinn Örn Guðmundsson og Þórgunnur Þórarinsdóttir.
Ungmenna- og Íþróttafélaginu Smára, Kristinn Örn Guðmundsson og Herdís Lilja Valdimarsdóttir.
Ungmennafélaginu Neista, Sævar Snær Birgisson og Marta Birna Eiríksdóttir.
Frjálsíþróttadeild UMF Tindastóls, Stefanía Hermannsdóttir.
Knattspyrnudeild UMF Tindastóls, Einar Ísfjörð Sigurpálsson og Margrét Rún Stefánsdóttir.
Körfuknattleiksdeild UMF Tindastóls, Örvar Freyr Harðarson og Marín Lind Ágústsdóttir.

Á þessum tíma hafa einnig verið veittir styrkir úr Afreksmannasjóði UMSS. Í ár eru það tíu aðilar sem fá styrk úr sjóðnum; Andrea Maya Chirikadzi, Guðmar Freyr Magnússon, Ísak Óli Traustason, Margrét Rún Stefánsdóttir, Orri Már Svarsson, Sveinbjörn Óli Svavarsson, Veigar Örn Svavarsson, Þórarinn Eymundsson, Þórgunnur Þórarinsdóttir og Örvar Freyr Harðarson.

Þar sem við erum bundin sóttvarnarreglum, þá verður hátíðarviðburðurinn í ár einnig að bíða betri tíma og vonumst við að geta haldið hátíðarstund með okkar frábæra íþróttafólki fljótlega á nýju ári.

Thelma Knútsdóttir
framkvæmdastjóri UMSS