Verndum þau

Verndum þau

Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og unglingum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, að geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt, eigi sér stað og vita hvernig bregðast á við ef slík mál skjóta upp kollinum.

Æskulýðsvettvangurinn hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni samnefndrar bókar og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og öðrum áhugasömum.

UMSS, USAH og USVH héldu námskeið þann 2. nóvember fyrir þjálfara og stjórnarfólk sambandanna. Námskeiðið var haldið á Sauðárkróki, upp á þekju í Árskóla.

Markmið námskeiðsins er að fyrirbyggja kynferðisofbeldi gegn börnum, þekkja vísbendingar og einkenni ofbeldis og læra að bregðast rétt við. Við hvetjum öll önnur íþróttafélög og foreldrafélög til að setja sig í samband við Barnaheill. Við þökkum Guðrúnu Bjarnadóttur sérfræðingi frá Barnaheillum fyrir góða og mikilvæga fræðslu öllum til heilla.