99. Ársþing UMSS

Klara Helgadóttir formaður UMSS 
með viðurkenningu ÍSÍ, Fyrirmyndarhérað.
Klara Helgadóttir formaður UMSS
með viðurkenningu ÍSÍ, Fyrirmyndarhérað.

Ársþing Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) var haldið í Húsi frítímans á Sauðárkróki þriðjudaginn 19. mars síðastliðinn. Alls voru 43 þingfulltrúar mættir af 60 mögulegum. Alls eru tíu aðildarfélög innan UMSS: Bílaklúbbur Skagafjarðar, Golfklúbbur Sauðárkróks, Hestamannafélagið Skagfirðingur, Íþróttafélagið Gróska, Siglingaklúbburinn Drangey, Ungmenna- og íþróttafélagið Smári, Umf. Hjalti, Umf. Neisti, Umf. Tindastóll og Vélhjólaklúbbur Skagafjarðar. Mættu fulltrúar allra aðildarfélaga nema Íþróttafélagsins Grósku.

Fjölmargar tillögur lágu fyrir þinginu og voru þær allar samþykktar, sumar með áorðnum breytingum í nefndum eða í þingsal. Stjórn UMSS var öll kjörin áfram til starfa fyrir sambandið.

Gunnar Þór Gestsson og Sara Gísladóttir voru sæmd starfsmerki UMFÍ á ársþingi Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) sem haldið var á þriðjudag. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, afhenti starfsmerkin.

Gunnar Þór hefur verið viðloðandi íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna frá unga aldri. Hann æfði og lék m.a. fótbolta með Tindastóli upp alla yngri flokkana ásamt því að spila með m.fl. félagsins.  Gunnar Þór hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina. Hann hefur verið formaður umf. Tindastóls og um þessar mundir situr hann bæði í stjórn UMSS og UMFÍ. Gunnar Þór er öflugur liðsmaður og gott að leita til hans með hin ýmsu málefni.

Sara hefur verið í stjórn og síðustu ár formaður Ungmenna- og Íþróttafélagsins Smára í Varmahlíð, einnig hefur hún verið afar virk í félagsmálum fyrir Hestamannafélagið Skagfirðing.  Söru er umhugað um félög sín og hefur verið óeigingjörn á tíma sinn í þágu þeirra.

ÍSÍ veitti UMSS viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ  á þinginu en það er annað héraðssambandið sem hlýtur þessa viðurkenningu á landinu, auk þessu sæmdi ÍSÍ  Viggó Jónsson Gullmerki ÍSÍ, en Viggó hefur unnið afar mikið og fórnfúst starf í tengslum við íþróttir í héraði til fjölda ára. Fulltrúar ÍSÍ á þinginu voru þeir Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri. Ingi Þór var auk þess 1. þingforseti.

Veitt var úr Afreksmannasjóði UMSS fyrir íþróttaárið 2018. Hlutu 9 einstaklingar styrk úr sjóðnum þetta árið (en þau eru í stafrófsröð);  Andrea Maya Chirikadzi, Jóhann Björn Sigurbjörnsson, Jón Gísli Eyland Gíslason, María Finnbogadóttir, Marín Lind Ágústsdóttir, Pétur Rúnar Birgisson, Viktoría Eik Elvarsdóttir, Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir og Örvar Freyr Harðarson. Ein þingtillaga þingsins var breyting á úthlutun úr Afreksmannasjóði UMSS. Nú verður hægt að senda inn styrkumsóknir allt árið (ný reglugerð um Afreksmannasjóð UMSS), eða til og með 30. nóvember ár hvert. Styrkafhendingar verða nú einnig framvegis úthlutaðar á hátíðarsamkomu sem haldin er milli jóla og nýsárs vegna tilnefningu á Íþróttamanni, Liði og Þjálfara Skagafjarðar.